Byggðakvótinn á Vopnafirði,2015

Athyglisvert.  skilst að það sé ein fiskverkun þarna sem heitir Vopnfiskur.




Vopnafjörður Mynd www.ismennt.is


Frétt af ruv.is

Útgerðaraðilar á Vopnafirði selja megnið af bolfiskafla í kvóta á almennum markaði vegna skorts á vinnslu í bæjarfélaginu. 550 tonnum af byggðakvóta var úthlutað í bæjarfélaginu á síðasta fiskveiðiári. Fiskistofa sinnir eftirliti illa að mati sveitarstjóra Vopnafjarðar en grásleppuafli bæjarins er væntanlega misskráður á Akranesi. Þrátt fyrir að vinnsla sé ekki tryggð í bæjarfélaginu fær Vopnafjarðarhreppur tæp 200 tonn í úthlutun Atvinnu- og Nýsköpunarráðuneytisins á byggðakvóta í ár.

 Útgerðaraðilar á Vopnafirði hafa ekki náð saman um sameiginlega vinnslu bolfisks og sökum vantrausts í garð þeirra vinnsluaðila sem eru fyrir á svæðinu selja þeir nær allan botnfiskafla á markað. Sveitarfélagið hefur ekki fengið undanþágur frá vinnsluskyldu í sérreglum um byggðakvóta en á á síðasta fiskveiðiári var uppsöfnuðum óveiddum kvóta frá fyrra ári og 300 tonnum síðasta fiskveiðiárs úthlutað, samtals 550 tonnum. Venjan er að smærri útgerðaraðilar sem nýta byggðakvóta eigi eða leigi til sín kvóta og fái með byggðakvótanum afslátt af þeim kostnaði sem fylgir kaupum eða leigu. Slíkur rekstur er grundvöllur að tilvist smærri fiskvinnslueininga víðs vegar á landinu. Mótframlag byggðakvótans er að mestu grásleppa en vegna breytinga á húsnæði HB Granda í vor var aflinn allur fluttur í burtu til fullvinnslu í ár.

Flókið regluverk

„Reglur um byggðarkvóta og skilyrðin sem fyrir úthlutun hans eru sett eru flókin, sérstaklega þegar til kemur það að mótframlag þeirra aðila sem veiða stóran hluta kvótans á Vopnafirði er í annarri fisktegund, grásleppunni, en veiðar á henni falla undir sérleyfi en byggja ekki á aðkeyptum kvóta,“ segir Þorsteinn Hilmarsson upplýsingafulltrúi Fiskistofu, sem er eftirlitsaðili með að reglugerð um að úthlutun til fiskibáta sé fylgt eftir. Úthlutun byggðakvótans er háð samningum sem Fiskistofa hefur eftirlit með þar sem sameiginleg yfirlýsing kemur fram frá sveitarfélagi, kaupanda og seljanda, um að aflinn sé unninn á staðnum. Engin áhöld eru um að þau skilyrði hafi verið uppfyllt sem um ræðir. „Skilyrðin eiga aftur á móti við um mótframlag þeirra aðila sem nýta kvótann. Hafi afla verið landað og hann unninn á viðkomandi stað, þá er samsvarandi magn af kvóta afhent aðilanum sem á rétt á þeim kvóta. Þó hann heiti í kerfinu byggðakvóti þá er hann bara heimild til að veiða ákveðið magn af fiski og á honum eru engar kvaðir. Þessvegna er hægt að landa þeim fiski sem viðkomandi aðili hefur rétt á að veiða og selja hann á markaði, án þess að hann fari til vinnslu á staðnum,“ segir Þorsteinn Hilmarsson.

Þetta tæknilega atriði útskýrir það hvers vegna þetta sértæka framlag ríkisins til sjávarbyggða í vanda, svokallaður byggðakvóti, getur farið til sölu á markaði án þess að vera unnin á staðnum. Heimild til að veiða afla og landa honum kallast úthlutaður kvóti, og að uppfylla skilyrði jafnast á við að greiða fyrir þann kvóta. Þegar sá kvóti er kominn í hendur útgerðarmannsins, þá er ekki lengur á honum nein kvöð um að hann sé unninn á staðnum. Ekki er við Fiskistofu að sakast í þeim efnum, þeir fylgja bara reglugerðinni. Þó verður að halda því til haga að þar á bæ er um yfirsjón að ræða þegar tölulegar upplýsingar eru teknar saman um vinnslu afla á Vopnafirði sem liggja að baki úthlutun byggðakvótans.

Samdráttur í vinnslu á staðnum er forsenda úthlutunar

Megin inntak hugmyndarinnar á bakvið byggðakvótann er að aflinn sé unnin á staðnum og skapi atvinnu í landi með vinnslu afurðanna. Á Vopnafirði eru að nafninu til starfandi tvær vinnslur. Annarri þeirra, Vopnfiski hf, er ætlað að starfa í hefðbundinni botnfiskvinnslu en ekki hefur tekist að koma því þannig fyrir að útgerðarmenn leggi þar upp aflann, vegna samskiptaörðugleika við rekstraraðila hennar. Því hefur reksturinn á henni verið svo brösóttur að útgerðaraðilinn sem rekur hana hefur jafnvel selt sinn eigin afla á markað. Hin vinnslan er tímabundin yfir grásleppuveiðitímann og unnin í verktöku fyrir Vigni G. Jónsson á Akranesi, fyrirtæki sem sérhæfir sig í vinnslu hrogna. Verktakinn fær afnot af húsnæði á staðnum, sem er í eigu móðurfélags Vignis G. Jónssonar, HB Granda. Enginn vafi leikur á því að þar eru hrognin unnin og stefnt er að frystingu grásleppuhveljunnar þar á næsta ári, en tölurnar um vinnsluna skila sér ekki í bókhald Fiskistofu yfir unninn afla á Vopnafirði. Það er í sjálfu sér atriði sem er tæknilegt og hægt að ráða bót á, því þrátt fyrir að aflinn hafi ekki verið frystur á Vopnafirði í síðustu vertíð þá starfa þar sjö til tíu manns við vinnsluna á vorin. Það veit Fiskistofa og því hafa ekki verið gerðar athugasemdir við að grásleppan sé talin mótframlag við úthlutun byggðakvótans. Aftur á móti kom á daginn við rannsókn fréttastofu að aflinn er talinn fram í heimahöfn kaupandans, á Akranesi, og því skekkjast tölur Atvinnu- og Nýsköpunarráðuneytisins þegar reiknaður er út samdrátturinn í vinnslunni á Vopnafirði. Meiri samdráttur kemur þá í ljós heldur en í rauninni er og því fær Vopnafjarðarhreppur meiri byggðakvóta úthlutað en tilefni stendur til.

Eftirlitsskyldan er hjá Fiskistofu

„Það er útilokað að við gætum haft eftirlit með þessu, enda treystum við því að upplýsingarnar sem kaupandi og seljandi gefa upp, séu réttar og í samræmi við reglurnar um byggðakvótann enda eru þær meðhöndlaðar af Fiskistofu,“ segir Ólafur Áki Ragnarsson, sveitarstjóri Vopnafjarðarhrepps, sem undirritar samningana fyrir hönd hreppsins. Hann segir ljóst að eftirlitsskyldan sé hjá Fiskistofu og ráðuneytinu. Sveitarstjórnin beri tillögur um sérreglur, meðal annars um það hvernig byggðakvótanum sé úthlutað, undir ráðuneytið til samþykktar eða synjunnar. Í fyrra hafi verið sótt um undanþágu frá vinnsluskyldu á staðnum en hún ekki fengist. Því hafi ekki verið sótt um hana að nýju í ár. Reglugerðin kveður á um að á staðnum sé fiskurinn flakaður, flattur, frystur eða saltaður, en ekkert af þessu á við um vinnslu grásleppunar á þessu fiskveiðiári, ef frá er talið að hrognin voru söltuð í tunnur. Þetta skiptir máli, því grásleppan er mótframlag útgerðaraðilanna til þess að fá í sinn hlut ákveðið hlutfall þess byggðakvóta sem rennur til sveitarfélagsins útfrá reiknireglu ráðuneytisins.

Ólafur Áki segir að sveitastjórnin viti það eins og allir í bæjarfélaginu að vinnsla fari fram á grásleppunni. Eins og áður sagði var þó ljóst að vinnsluleyfi Vignis G. Jónssonar á Akranesi á ekki við í húsnæði hinumegin á landinu. Á húsnæðinu sem um ræðir, mun þrátt fyrir þetta tæknilega atriði vera leyfi til matvælavinnslu, en það er ekki skráð á verkanda grásleppunnar, Bræður ehf, enda er það fyrirtæki skráð sem vöruflutningafyrirtæki. „Við vitum að hann er unninn og við komum af fjöllum þangað til þið höfðuð samband og Fiskistofa í kjölfarið,“ segir Ólafur jafnframt. 

Ekki að sakast við grásleppukarlana

Stærsta og fullkomnasta fiskvinnsluver HB Granda í uppsjávarfiski er staðsett á Vopnafirði og þar starfa um 65 manns fastráðin í uppsjávarfrystihúsinu. Að sögn Magnúsar Þórs Róbertssonar hjá HB Granda bætist svo við fjöldi manns þegar vertíðar eru í fullum gangi. Vinnslan í uppsjávarafurðum er vertíðarbundin og regluleg vinnslustopp mánuðum saman leiða af sér að starfsfólkið er á tryggingarkaupi stóran hluta ársins. Ólafur Áki segir alvarlega stöðu vera myndast vegna þess að bæjarfélagið búi ekki að neinni botnfiskvinnslu sem sé í stöðugum rekstri. Tekjur sveitafélagsins hrapi þegar vinnslustopp séu í verksmiðju HB Granda. Ljóst er að úthlutaður byggðakvóti hefur ekki leitt það af sér að uppbygging eigi sér stað í botnfiskvinnslunni. 1514 tunnur af hrognum voru söltuð á Vopnafirði í fyrra, mesti afli í áraraðir og 620 tonn fóru í gegnum vinnsluna, að sögn undirverktaka sem vinnur aflann á Vopnafirði. Af þeirri vinnslu allri eiga grásleppukarlarnir heiðurinn óháð allri úthlutun byggðakvóta. Þeir veiða og leggja til vinnslu þetta magn, en sökum misskráningar á Akranesi er því ekki aukning á vinnslu afla á Vopnafirði, heldur er skráð vinnsla þar 0 tonn. Með öðrum orðum, ekkert er unnið þar og því er ástandið ekkert að batna, þegar útreikningar ráðuneytisins hefjast.

Aðspurður um það hvort það sé ekki óheppilegt að misskáning aflans, grásleppunnar sem var landað á Vopnafirði í síðastliðinni vertíð, leiði til skerðingar á byggðakvótanum sem þegar hefur verið úthlutað segir Ólafur Áki það vissulega vera svo. „Það náttúrulega kemur niður á útreikningum á byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið ef að vinnslan sé misskráð, og getur skert okkar úthlutun. Þetta hlýtur að vera málefni Fiskistofu að aflinn sé skráður í þeirri vinnslu þar sem aflinn er unninn og að þeir geri athugasemdir við viðkomandi ef ekki er rétt með farið.  Við höfum enga möguleika til þess að fylgja því eftir.“ 

Fengið hámarksúthlutun frá því Grandi lokaði bolfiskvinnslunni

Byggðakvóti kemur til handa þeim byggðum sem samkvæmt skilgreiningu ráðuneytisins hafa lent í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi og eru háð veiðum eða vinnslu á botnfiski. Einnig eiga reglurnar við þar sem óvænt skerðing heildaraflaheimilda fiskiskipa hefur komið til. Venjan er að líta til þess að veruleg áhrif hafi orðið á atvinnuástandið í byggðarlögunum sem um ræðir. Reglurnar eiga aftur á móti aðeins við botnfiskveiðar og því er forsenda þeirrar úthlutunar sem um ræðir til Vopnafjarðar sá samdráttur sem varð þegar HB Grandi hætti allri botnfiskvinnslu.

Frá árinu 2008 hefur Vopnafjörður fengið hámarksúthlutun á byggðakvóta ár eftir ár, á forsendum samdráttar í einni ákveðinni tegund vinnslu sem þá átti sér stað í kjölfar breyttra áherslna hjá HB Granda. Framlagið lækkaði í ár um þriðjung, í um 200 tonn. Framlög hafa einnig lækkað á fleiri stöðum enda miðar reikniregla ráðuneytisins við tíu ára tímabil. Það þýðir að þau áföll sem urðu í fiskvinnslu á árunum 2004-2005 eru hætt að hafa áhrif á úthlutun almenna byggðakvótans. Samdrátturinn telst ekki lengur með í reiknireglunni.

Framlög til Dalvíkur, Seyðisfjarðar og fleiri staða minnkuðu mikið í ár en Húsavík datt til dæmis út, þar sem of langt er um liðið síðan rækjuverksmiðja hætti þar rekstri fyrir mörgum árum. Heildarúthlutun byggðakvóta í ár dróst saman um rúm 500 tonn, fór úr rúmum 6000 tonnum í rúm 5500. Ekki er ljóst hvað skýrir þann heildarsamdrátt en reglur ráðuneytisins eru skýrar um það hvernig heildarpottinum er skipt niður. Í reiknireglunni er gengið útfrá samdrætti í ákveðinni grein sjávarútvegsins en ekki tekið tillit til heildarmyndar eða breyttra atvinnuhátta. Gríðarleg fjárfesting og uppbygging HB Granda í sjávarútvegi á Vopnafirði, tengt uppsjávarveiðum og vinnslu þess afla, breytir engu um magn byggðakvóta sem þangað er úthlutað.

Vilja nýta byggðakvótann til að byggja upp nýliðun í greininni

Fáir útgerðarmenn eiga kvóta á Vopnafirði og einhverjir útgerðarmenn seldu kvóta sinn þegar Grandi hætti botnfiskvinnslu sinni árið 2008. Veiðiskapur smærri útgerðaraðila byggir að mestu á grásleppuveiðum og strandveiðum á sumrum, auk þess sem menn sækja þann byggðakvóta sem þeir fá úthlutað í gegnum bæjarfélagið eða hafa tekjur af því að leigja hann frá sér á markaði. Gagnrýnisraddir hafa verið uppi um að nú standi vel stæðir fyrrum kvótaeigendur uppi með vel búna báta og dundi sér á grásleppu og strandveiðum, en þiggi að auki byggðakvóta í gegnum bæjarfélagið sem þeir sendi beint á markað þar sem hann er seldur hæstbjóðanda. Hagsmunir þeirra í að byggja upp vinnslu á staðnum séu engir. Sveitarstjórn Vopnafjarðarhrepps útdeilir þeim kvóta sem hún hefur yfir að segja með gagnsæjum hætti þar sem 35% heildarmagnsins fer til uppbyggingar nýliðunar í greininni en 65% er úthlutað jafnt á alla báta samkvæmt veiðireynslu í botnfiski. „Við erum að reyna nýta þennan byggðakvóta til nýsköpunar í greininni. En það eru mörg sveitarfélög á landinu sem hafa lítil not fyrir þennan kvóta. Það er brotalöm á þessu kerfi þegar reglurnar eru svona og réttast væri að kvótinn væri veittur í sértæk verkefni eins og til að byggja upp vinnslu sem lið í að byggja upp fjölbreyttara atvinnulíf,“ segir Ólafur Áki Ragnarsson sveitarstjóri.